Á sama tíma og hefðbundin sveitabyggð er brostin við norðanverðan Arnarfjörð hefur í einum afskekktasta dal landsins, lengst vestur á Vestfjörðum, byggst upp eitt veglegasta hrossabú landsins, með reiðhöll, skeiðvelli og öðru sem tilheyrir. Eigandinn, sem er líka með einkasundlaug og hefur svín á beit útí haga, segist vera að fjárfesta í skemmtilegum stundum og minningum.
Að Laugabóli í Mosdal blasa nú við byggingar svo veglegar að þær minna meira á evrópskan búgarð en vestfirskan afdalabæ. Þar á hlaðinu, við 300 fermetra íbúðarhús í norskum stíl, hittum við manninn á bak við þetta allt saman, Árna Beintein Erlingsson úr Reykjavík. Hann lifði áður á fiskveiðum en var með bát sinn á Bíldudal þegar hann fékk hugmyndina að því að kaupa jörðina, sem annars var að fara í eyði.
Í viðtali í Íslandi í dag á Stöð 2 lýsir Árni uppbyggingunni en hestarnir eru orðnir 150 talsins. Hann gerir sér engar vonir um að hin mikla fjárfesting skili sér til baka í beinhörðum peningum en vonast þó til að hrossaræktin standi undir rekstrarkostnaði.
Hann er hins vegar lentur í þeirri skrýtnu stöðu að vera eini bóndinn sem eftir er í Auðkúluhreppi, á stóru svæði við Arnarfjörð, þar sem fyrr á tímum bjuggu mörg hundruð manns.
Innlent
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.