Enski boltinn

The Sentinel: Stoke bíður eftir tilboðum í Eið Smára í janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/Nordic Photos/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen vill losna frá Stoke City eins og hefur komið fram og staðarblaðið The Sentinel segir í morgun að Stoke City sé tilbúið að hlusta á tilboð í leikmanninn þegar félagsskiptaglugginn opnar í janúar.

Eiður Smári er með samning við Stoke út tímabilið en hann hefur aldrei fengið tækifæri í byrjunarliði liðsins og hefur ekki fengið að spila eina einustu mínútu með liðinu á undanfarna tvo mánuði.

Eiður Smári spilaði hálfan leik með varaliði Stoke í leik á móti Wigan fyrir tveimur vikum en það breytti engu fyrir stöðu hans innan aðalliðsins þar sem hann hefur þurft að dúsa á bekknum í níu leikjum í röð.

Eiður Smári er eins og er fimmti framherji Stoke og gæti dottið enn neðar í goggunarröðinni þegar Mama Sidibe kemur til baka eftir meiðsli.

The Sentinel segir að Stoke hafi ekki fengið nein tilboð í Eið Smára en að nafn hans hafi verið upp á borðinu þegar félagið gekk frá kaupunum á Jermaine Pennant frá spænska liðinu Real Zaragoza.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×