Enski boltinn

Eiður vill kaupa upp eigin samning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári í leik með Stoke City.
Eiður Smári í leik með Stoke City. Nordic Photos / Getty Images

Eiður Smári Guðjohnsen vill kaupa upp samninginn sinn við enska úrvalsdeildarfélagið Stoke City. Þetta hefur Vísir eftir sínum heimildum.

Fyrr í vikunni var greint frá því í íslenskum fjölmiðlum að Eiður Smári hefði komist að samkomulagi um að fá sig lausan frá Stoke City.

Samkvæmt upplýsingum Vísis er málið ekki komið svo langt. Eiður Smári vilji kaupa upp samninginn sinn við Stoke svo hann verði laus allra mála hjá félaginu.

Tony Pulis, knattspyrnustjóri Stoke, hefur sagt í enskum fjölmiðlum að félagið sé reiðubúið að hlusta á tilboð í Eið Smára. Nú lítur út fyrir að eitt þeirra verði frá Eiði Smára sjálfum.

Eiður á hálft ár eftir af samningi sínum við Stoke City en félagið keypti hann í lok sumars frá franska félaginu Monaco.

Óljóst er hversu mikið Eiður Smári þurfi að greiða til að kaupa upp samninginn sinn en sú upphæð hleypur væntanlega á minnst tugum milljóna króna.

Verði þetta niðurstaðan hefur Eiður Smári sjálfur öll völd í sínum höndum um framtíð sína. Félagaskiptaglugginn opnar um áramótin og verður opinn í allan janúar. Eiður hefur því rúmlegan mánuð til að ganga frá sínum málum.

Ítarlega hefur verið fjallað um veru Eið Smára hjá Stoke. Hann hefur aldrei fengið tækifæri í byrjunarliðinu og komið við sögu í fjórum deildarleikjum sem varamaður. Síðasti leikur sem hann spilaði var gegn West Ham í ensku deildabikarkeppninni þann 27. október síðastliðinn - einnig sem varamaður.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×