Enski boltinn

Bale: Tottenham getur orðið enskur meistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Bale og Luka Modric.
Gareth Bale og Luka Modric. Mynd/Nordic Photos/Getty
Gareth Bale hjá Tottenham er viss um það að liðið geti orðið enskur meistari á þessu tímabili. Tottenham hefur staðið sig frábærlega á leiktíðinni til þessa, bæði í deild og Evrópukeppni og það er ekki síst að þakka eimreiðinni á vinstri vængnum.

Gareth Bale skoraði sitt tíunda mark á tímabilinu í 2-0 sigri Tottenham á Newcastle í fyrrakvöld og var það mark valið fallegasta mark vikunnar í ensku úrvalsdeildinni. Eftir leikina í vikunni er Tottenham í fimmta sæti deildarinnar einu stigi á eftir Chelsea (4. sæti) og fimm stigum á eftir Manchester liðunum sem eru í efstu tveimur sætunum.

„Það er engin ástæða til að halda annað en að við getum barist um titilinn. Við erum fullir sjálfstraust eins og sást þegar við höfum unnið tvo síðustu leiki þrátt fyrir að lenda manni undir. Við sækjum á mótherjana við hvert tækifæri og komum til með að vera með í baráttunni fram á vor," sagði Gareth Bale.

„Það eru allir að berjast fyrir hvern annan inn á vellinum og okkur kemur öllum mjög vel saman. Það er að skila sér í góðum úrslitum," sagði Bale.

„Það er notalegt að vera búinn að skora tíu mörk á fyrri hluta tímabilsins en ég var ekkert búinn að setja mér neitt markmið að skora ákveðin fjölda af mörkum. Ég ætla bara að halda áfram og vonandi get ég skorað einhver fleiri áður en tímabilinu lýkur," sagði Bale.

„Árið 2010 er búið að vera frábært hjá mér en ég ætla að einbeita mér að því að skila minni vinnu og reyna að hjálpa mínu liði. Það er það besta sem getur gerst fyrir mig að ég get eitthvað hjálpað til hjá Tottenham," sagði Bale hógvær að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×