Innlent

Stóraukin sala á lambakjöti

Sigurður Eyþórsson.
Sigurður Eyþórsson.
Lambakjötssala í júní var um það bil 35% meiri en í fyrra, 555 tonn seldust í ár en 410 tonn í sama mánuði í fyrra. Frá öðrum fjórðungi síðasta árs er söluaukningin 7,8%. Þetta eru heildsölutölur, það er að segja viðskipti verslana, kjötvinnslufyrirtækja og veitingastaða við sína birgja.

„Annars vegar er verðið lækkandi og mikið um tilboð. Hins vegar var þetta gríðarlega hlýr mánuður. Þá grillar fólk mikið og það hjálpar okkur," segir Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda, um ástæður þessarar auknu sölu.

Hann segir kannanir benda til þess að Íslendingar kjósi helst af öllu lambakjöt þegar þeir ætla að grilla.

Sigurður segist telja ólíklegt að svo mikil söluaukning verði einnig í júlí. Hann segir að sauðfjárbændur séu ánægðir með að salan sé að taka við sér á ný. Árið 2008 var besta ár í sölu lambakjöts hér á landi frá 1993. Ótti við kreppuna kom meðal annars fram í því að fólk fyllti frystikistur af lambakjöti haustið 2008. Í samræmi við þá birgðasöfnun heimilanna dróst öll kjötsala saman 2009, auk þess sem Sigurður segir að þá hafi kaupmáttarskerðingin eftir hrunið verið farin að bíta. „Núna virðist markaðurinn vera að snúast aftur og við erum kátir með það," segir Sigurður Eyþórsson. Útflutningur hefur einnig aukist, var 170 tonn í júní, sem er 182% aukning frá því í fyrra. Fyrir vikið eru mun minni birgðir í landinu en áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×