Innlent

Ekki borað í Bobby

SB skrifar
Gröf Bobby Fischer.
Gröf Bobby Fischer.
Stórblaðið New York Post heldur því fram að borað hafi verið í gegnum kistu Bobby Fischer til að ná lífsýnum hins látna skáksmeistara. Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segir frétt New York Post ranga.

Í grein New York Post stendur að borað hafi verið í gegnum kistuna og í lík Bobby Fischer. Fyrirsögn greinarinnar er „Borað í lík Fishcer." Greinina skrifar Andy Soltis, sem er stórmeistari í skák og var útnefndur skákblaðamaður ársins í Bandaríkjunum árið 1988.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segir lýsingu New York Post ranga. „Þetta var allt gert með mjög formlegum hætti," segir hann. Spurður hvort borað hafi verið í lík Bobby, líkt og New York Post heldur fram, segir Ólafur: „Ég get staðfest að það er ekki rétt."

New York Post er sjötta stærsta dagblað Bandaríkjanna og er í eigu Rubert Murdoch. Blaðið deilir húsi með Fox News og Wall Street Journal. Það er þekkt fyrir æsiblaðamennsku og að tilheyra hinni svokölluðu „gulu pressu".

Lík Bobby Fischer var grafið upp í þeim tilgangi að fá málalyktir í harðvítuga faðernisdeilu þar sem arfur Bobby er ásteitingarsteinn hinna deilandi fylkinga. Fischer lést þann 17. janúar 2008 - 64 ára gamall.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×