Erlent

Þingnefnd skoðar Treholt-mál

Treholt og Rússarnir Mynd sem birtist víða þegar Treholt-málið stóð sem hæst.  fréttablaðið/AP
Treholt og Rússarnir Mynd sem birtist víða þegar Treholt-málið stóð sem hæst. fréttablaðið/AP
Norsk þingnefnd, sem hefur það hlutverk að fylgjast með upplýsinga-, eftirlits- og öryggisþjónustustofnunum norska ríkisins, ætlar að hefja rannsókn á því hvernig farið var með mál Arne Treholt, háttsetts embættismanns í utanríkisráðuneytinu, sem dæmdur var fyrir njósnir í þágu Sovétríkjanna.

Í nýútkominni bók er norska lögreglan sökuð um að hafa falsað sönnunargögn sem leiddu til sakfellingar Treholts. Treholt var handtekinn árið 1984 og dæmdur til tuttugu ára fangelsisvistar. Hann var látinn laus árið 1992 og flutti þá til Rússlands. Hann býr nú á Kýpur.

Treholt hefur jafnan haldið fram sakleysi sínu. Hann gerir sér vonir um að þingnefndin líti málið nýjum augum, en þessi sama nefnd vísaði fyrir tveimur árum frá beiðni hans um að málið yrði endurupptekið fyrir dómi.

„Það nýja er að nefndin er ekki skipuð sömu mönnum og síðast. Það er jákvætt,“ hefur norska dagblaðið Aftenposten eftir honum.- gb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×