Innlent

Ekki búist við öskufalli á höfuðborgarsvæðinu

Mynd/Daníel Rúnarsson
Samkvæmt upplýsingum Veðurstofu hefur heldur dregið úr öskufalli frá eldgosinu í Eyjafjallajökli en spáð er suðaustlægri átt í dag og vaxandi vindi. Eitthvað öskufall er nú í átt að Fljótshlíð og verður líklega áfram norðvestur af eldstöðinni næstu daga. Í dag var tilkynnt um „öskufjúk" á Rangárvöllum og í Hveragerði, að fram kemur í tilkynningu frá samhæfingarstöð almannavarna.

Gert er ráð fyrir öskumistri til norðvesturs frá eldstöðinni sem getur jafnvel náð í örlitlum mæli til höfuðborgarsvæðisins í dag og næstu daga. Með öskumistri er átt við truflun í skyggni vegna ösku og mælanlega aukningu í svifryksmengun. Mjög ólíklegt er að sýnilegt öskufall verði á höfuðborgarsvæðinu næstu daga og því ekki ástæða til sérstakra aðgerða.



Bændur aðstoðaðir við mjaltir


Lögreglan á Hvolsvelli vill koma því á framfæri að þegar ekið er undir Eyjafjöllum er mælt með að ýtt sé á hringrásarhnapp miðstöðvakerfis bílsins, þá berst síður aska inn í ökutækið, líkt og þegar ekið er í gegn um göng.

Fjöldi slökkvibíla og slökkviliðsmanna hafa unnið að því að þvo hús á öskufallssvæðinu í dag með aðstoð björgunarsveitarmanna. Bændur hafa fengið aðstoð við mjaltir og gegningar.

Flugvél Gæslunnar komin til Reykjavíkur

Flugvél Landhelgisgæslunnar TF-SIF er komin aftur til Reykjavíkur eftir að hafa verið staðsett á Reykjavíkurflugvelli frá því snemma í morgun en þyrlan TF-GNÁ verður áfram staðsett á Akureyri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×