Gunnar Björn Guðmundsson, leikstjóri Gauragangs, hefur undanfarnar vikur legið á bæn og beðið um snjó. Hann var bænheyrður á miðvikudagskvöldið.
Kvikmyndin Gauragangur verður ein af jólamyndum þessa árs en ráðgert er að hún verði frumsýnd á annan í jólum. Myndin er byggð á samnefndu verki Ólafs Hauks Símonarsonar og fjallar um Orm Óðinsson og glímu hans við lífið. „Við áttum bara vetrartökur eftir og vorum eiginlega búin að gefa upp alla von á snjónum, vildum allra helst fá bara mikið frost svo við gætum sýnt þennan sérstaka lit á laufblöðunum,“ segir Gunnar Björn en tökuliðið fór meðal annars með leikara upp á Bláfjallaveg til að ná fram sem mestum kuldaáhrifum. „Og það var alveg brjálæðislega kalt.“
En svo brostu veðurguðirnir til Gunnars og tökuliðsins á miðvikudag og hvítar snjóflyksur féllu til jarðar. „Þetta var frábært og alveg ótrúlegt. Við vorum búnir að koma fyrir gervisnjó og það var búið að plana þessar tökur akkúrat á þessum degi. Menn voru að gæla við að það myndi snjóa eitthvað en þetta var alveg framar okkur björtustu vonum. Indjánadansinn hefur augljóslega skilað sínu.“
freyrgigja@frettabladid.is
Leikstjóri var bænheyrður
