Erlent

Obama fundar með leiðtogum Palestínu og Ísraels

Óli Tynes skrifar
Baarack Obama mun tæplega eiga náðuga daga við að koma á friði í Miðausturlöndum.
Baarack Obama mun tæplega eiga náðuga daga við að koma á friði í Miðausturlöndum.

Þetta verður í fyrsta skipti sem allir leiðtogarnir þrír hittast. Samkvæmd dagskránni mun Obama fyrst hitta þá Benjamín Netanyahu og Mahmoud Abbas hvorn fyrir sig til þess að leggja línurnar fyrir fund allra þriggja.

Ætlunin er að reyna að koma friðarviðræðum aftur í gang. Palestínumenn krefjast þess að Ísraelar hætti að stækka landnemabyggðir sínar á Vesturbakkanum.

Benjamín Netanyahu hefur sagst tilbúinn til þess að frysta allar framkvæmdir í níu mánuði, meðan verið sé að semja um endanlega lausn.

Sú lausn gæti falist í því að Ísraelar héldu einhverjum landhemabyggðum í skiptum fyrir land annarsstaðar.

Jerúsalem er svo sérstakt vandamál. Palestínumenn vilja fá austurhluta hennar sem höfuðborg sjálfstæðs ríkis síns.

Ísraelar segja hinsvegar að þeir muni aldrei fallast á að Jerúsalem verði skipt aftur, eins og hún var áður en þeir hertóku hana alla í sex daga stríðinu árið 1967.

Hamas samtökin eru lítt hrifin af fyrirhuguðum fundi í Washington. Leiðtogi þeirra á Gaza ströndinni er Ismail Haniyeh.

Hamas hrakti Mahmoud Abbas forseta og liðsmenn hans frá Gaza ströndinni með vopnavaldi í júlí árið 2007.

Haniyeh sagði í samtali við fréttamenn í dag að enginn hafi rétt til þess að undirrita samkomulag sem svipti palestínumenn réttindum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×