Innlent

Almannavörnum tilkynnt um landris í Krýsuvík

Kristján Már Unnarsson skrifar

Landris mælist nú við Kleifarvatn og er talið að kvika geti verið að byggja upp þrýsting á litlu dýpi í eldstöðvakerfi Krýsuvíkur. Jarðvísindamenn hafa upplýst Almannavarnir og lögregluyfirvöld um stöðuna og mælt með því að sérstök aðgæsla verði höfð með svæðinu vegna hættu á lífshættulegum gufusprengingum.

Samfara aukinni jarðskjálftavirkni hefur land við Krýsuvík verið að rísa í um það bil eitt ár. Freysteinn Sigmundsson jarðeðlisfræðingur segir að landris mælist nú um þrír sentímetrar á svæði sem er nokkrir kílómetrar í þvermál. Miðjan er í miðju eldstöðvakerfi Krýsuvíkur, skammt frá jarðhitasvæðinu sem ferðamenn heimsækja við suðurenda Kleifarvatns.

Freysteinn telur landrisið stafa af þrýstiaukningu í jarðskorpunni á þriggja til fjögurra kílómetra dýpi. Tvennt geti skýrt þetta; hægfara innstreymi kviku undir Krýsuvík eða breyting í jarðhitakerfinu, sem af einhverjum orsökum byggi upp þrýsting þar.

Vísindamenn hafa tilkynnt Almannavörnum um þróun mála og hafa lögregluyfirvöld á svæðinu einnig verið upplýst um atburðarásina. Á þessu stigi ráðleggur Freysteinn þó eingöngu að fylgst verði enn betur með svæðinu en hann telur ekki líkur á eldgosi. Ef þetta séu kvikuhreyfingar séu þær hægfara kvikuinnskot.

Freysteinn rifjar hins vegar upp atburð sem varð í Krýsuvík fyrir tíu árum þegar geysiöflug gufusprenging varð við hverasvæðið í Krýsuvík. Þá hafi verið mikil mildi að fólk var ekki nærri. Hann mælir með aðgæslu en telur ekki ástæðu til að banna umferð um svæðið.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.