Erlent

Ætlar að gera Fiat næst stærsta

Guðjón Helgason skrifar
Í miðri kreppu vill stjórnandi Fiat gera fyrirtækið að næst stærsta bílaframleiðanda heims. Hann hefur áður ráðist í miklar framkvæmdir í niðursveiflu og þá á Íslandi.

Ítalski bílaframleiðandinn Fiat hefur náð samkomulagi um yfirtöku á bandaríska bílarisanum Chrysler sem lýsti sig gjadþrota á fimmtudaginn og horfir nú hýru auga til evrópuarms General Motors, Opel í Þýskalandi og Vauxhall í Bretlandi.

Sergio Marchionne, framkvæmdastjóri Fiat, vill sameina fyrirtækin og búa til næst stærsta bílaframleiðanda heims á eftir Toyota í Japan. Hann kynnti þýskum stjórnvöldum hugmyndir sínar í dag.

Karl-Theodor zu Guttenberg, ráðherra efnahagsmála í Þýskalandi, segir áform Fiat að halda í vörumerkið Opel, áfram vera með höfuðstöðvar í Þýskaland þar sem einnig verði áfram verksmiðjur.

Fiat ætlar ekki að yfirtaka skuldir en þarf brúarlán fyrir kaupunum með ábyrgð frá þýska ríkinu. Varahlutaframleiðslufyrirtæki frá Kanada hefur einnig lýst yfir áhuga á samstarfi við Opel og því fleiri um hituna.

Marchionne mun þó harður í horn að taka og er þakkað viðsnúningur á rekstri Fiat sem hann tók við í miklum fjárhagskröggum 2004. Hann er Íslendingum kunnur en sem framkvæmdastjóri Alusuisse 1995 ákvað hann að bæta við kerskála í Straumsvík sem margir telja að hafi bundið enda á efnahagslægð sem var árin á undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×