Erlent

Úthlutun friðarverðlauna vekur furðu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Obama á skrifstofu sinni Bandaríkjaforseti á mikið verk fyrir höndum að standa undir kröfum Nóbelsnefndarinnar. nordicphotos/AFP
Obama á skrifstofu sinni Bandaríkjaforseti á mikið verk fyrir höndum að standa undir kröfum Nóbelsnefndarinnar. nordicphotos/AFP

Ákvörðun norsku Nóbelsverðlaunanefndarinnar um að veita Barack Obama Bandaríkjaforseta friðarverðlaunin í ár vakti furðu víðs vegar um heim. Sjálfur sagðist Obama undrandi og finna til auðmýktar, en hann myndi líta á verðlaunin sem hvatningu til dáða.

Í tilkynningu frá nefndinni segist hún veita Obama verðlaunin „fyrir einstaka viðleitni sína til að styrkja alþjóðasamskipti og samvinnu milli þjóða“. Nefndin segir að þar sé sérstaklega horft á framlag Obama við að losa heiminn við kjarnorkuvopn.

Aðeins tíu mánuðir eru liðnir frá því að Obama tók við embætti. Þótt hann hafi lofað margháttuðum breytingum, sem margar hverjar eiga að vera í friðarátt, þá hefur honum enn varla tekist að hrinda neinum þeirra veigamestu í framkvæmd.

„Svona fljótt?“ spurði pólski friðarverðlaunahafinn Lec Walesa, fyrrverandi baráttumaður gegn oki kommúnismans og síðar forseti landsins, og trúði varla fréttunum frekar en margir aðrir.

„Þetta er of fljótt. Hann hefur ekki raunverulega lagt neitt fram enn. Hann hefur komið með tillögur og er að hefja starf sitt, en hann á enn eftir að afreka það allt.“

Thorbjörn Jagland, formaður norsku Nóbelsnefndarinnar, segist skilja þau viðbrögð, að fólki finnist Obama fá verðlaunin of fljótt: „En þá vil ég segja að eftir þrjú ár geti orðið of seint að bregðast við. Tækifæri okkar til að bregðast við er núna.“

Obama er fjórði Bandaríkjaforsetinn sem fær friðarverðlaun meðan hann er í embætti. Hinir voru Theodore Roosevelt, Woodrow Wilson og Jimmy Carter. Aðrir forsetar hafa einnig hlotið þessi verðlaun í embætti, svo sem Mikhaíl Gorbatsjov, leiðtogi Sovétríkjanna og Kim Dae-Jung, forseti Suður-Kóreu.

Forsætisráðherrar hafa einnig fengið friðarverðlaunin á embættistíð sinni, svo sem Jitsak Rabin frá Ísrael og Willy Brandt Þýskalandskanslari. Aldrei áður hefur þó neinn þjóðarleiðtogi fengið verðlaunin eftir jafn skamma setu í embætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×