Erlent

Varaði Georgíumenn við

Guðjón Helgason skrifar

Rússlandsforseti ræður nágrannaríkjum frá því að leggja upp í hernaðarævintýri gegn Rússlandi. Ummælin lét hann falla á viðamikilli hersýningu á Rauða torginu vegna þess að 64 ár eru í dag frá uppgjöf nasista fyrir bandamönnum í Seinni heimsstyrjöldinni.

Loka Föðurlandsstríðsins eins og Rússar kalla það er minnst víða, þar á meðal hér á landi við minnismerkið Vonina í Fossvogskirkjugarði sem er til minningar um fallna þátttakendur í siglinum skipalesta yfir Atlantshafið í stríðinu.

Í Mosvku var haldin hersýning á Rauða torginu sem var sögð umfangsmeiri en í fyrra. Er talið að Rússar hafi viljað sýna mátt sinn og megin enda hafi þeir boðað að búnaður hersins verði bættur og nútímavæddur.

Í ræðu sinni sagði Rússlandsforseti að rússneski herinn myndi mæta hverri ógn. Fréttaskýrendur telja að hann hafi viljað senda skilaboð til Georgíumanna sem þeir börust við í fyrrasumar vegna sjálfsstjórnarhéraðsins Suður-Ossetíu.

Medvedev segir sigurinn í Föðurlandsstríðinu sigur gegn fasisma, dýrmætan og mikilvægan lærdóm fyrir þjóðir heims. Þetta sé lærdómur sem þurfi einnig að huga að í dag þegar leiðtogar sumra ríkja grípi til ævintýralegs hernaðar. Er talið að þar hafi forsetinn átt við Georgíumenn og árás þeirra á Suður-Ossetíu sem varð kveikjan að stríðinu í fyrra.

Ljóst er að grunnt er á því góða milli Rússa og Georgíumanna. Ráðamenn í Tíblísí segja Rússa hafa stutt valdaránstilraun í Georgíu fyrr í vikunni. Rússar neita því. Medvedev hefur án efa aukið á deilurnar þegar hann sendi kveðjur í ræðu sinni til leiðtoga Suður-Ossetíu og Abkasíu. Ráðamenn sjálfsstjórnarhéraðanna tveggja hafa einhliða lýst yfir sjálfstæði frá Georgíu og Rússar stutt það.













Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×