Innlent

Umfangsmesta kannabisræktun sögunnar stöðvuð á Kjalarnesi

Frá vettvangi
Frá vettvangi MYND/DANÍEL

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði umfangsmikla fíkniefnaframleiðslu á Kjalarnesi nú í kvöld. Um er að ræða kannabisræktun í Iðnaðarhúsnæði en tveir voru handteknir vegna málsins. Einnig fannst lítilræði af hvítu dufti á svæðinu.

Eigendur húsnæðisins hafa verið þar síðustu þrjú ár og telur lögregla að þar hafi farið fram nokkuð umfangsmikil ræktun á þeim tíma. Gróðurmoldin sem er í húsnæðinu skiptir tonnum en einnig fannst lítið magn af hvítum efnum.

Lögregla segir að um sé að ræða eina fullkomnustu verksmiðju sem hún hafi séð hér á landi en sér loftræstikerfi er fyrir ræktunina í húsinu.

Húsnæðið er um 300 fermetrar og að hluta til á tveimur hæðum. Um 500 plöntur eru þar í góðri ræktun og 120 plöntur í svokallaðri þurrkun. Einnig var búið að pakka um 400 grömmum.

Búnaðurinn sem notaður var við ræktunina er með fullkomnasta móti. Til að mynda eru vatnsdælur í loftinu sem sjá um að vökva plönturnar með næringu í.

Einnig er sturtuklefi í einu herberginu og hvítir gallar sem hægt er að klæða sig í áður en farið er inn í rýmið þar sem ræktunin fór fram. Að því loknu hafa menn getað skellt sér í sturtu og skolað af sér kannabislyktina.

Lögreglan réðst til inngöngu klukkan 19:20 í kvöld og voru þá tveir menn á þrítugsaldri á svæðinu og voru þeir handteknir. Þeir hafa áður haft aðkomu að fíkniefnamálum hér á landi en þó ekkert stórvægilegt að sögn lögreglu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×