Innlent

Segja Ögmund hafa kosið undir áhrifum áfengis

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, var undir áhrifum áfengis þegar hann kaus á Alþingi í gær samkvæmt Kastljósi í kvöld. Ekki er ljóst hvaða mál hann var að kjósa um.

Í frétt Kastljóss kom fram að Ögmundur hefði beðist undan viðtali í gær þar sem hann hefði verið undir áhrifum. Fréttamaður Kastljóss hafði farið sjálfur niður á Alþingi þar sem hann fékk afsvar um viðtal í mynd.

Tilefnið viðtalsins við Ögmund var málefni Verner Holdings og eignarhald Björgólfs Thors Björgólfssonar á félaginu sem hyggst starfrækja gagnaver í Reykjanesbæ. Frétt þess eðlis, og viðbrögð Ögmundar, voru birt í gær í Kastljósi.

Þess er skemmst að minnast að þingmaður Samfylkingarinnar, Sigmundur Ernir Rúnarsson, baðst afsökunar á þingi eftir að hann steig í pontu eftir að hafa smakkað áfengi.

Þau mál sem kosið var um í gær voru mál er varða vörumerki og hlutafélög og einkahlutafélög.

Þegar náðist í Ögmund sagðist hann vera á fundi og gat því ekki tjáð sig um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×