Innlent

Spáir því að Íslendingar verði olíuþjóð

Íslendingar eiga eftir að verða olíuþjóð, segir helsti sérfræðingur Noregs í Jan Mayen svæðinu, og líkir því við verðmætustu olíusvæði heims. Nýjustu hljóðbylgjumælingar sem gerðar voru á Drekanum í fyrra lofa góðu og mikill áhugi er meðal olíufélaga að kaupa upplýsingarnar.

Til að kanna líkindi á olíu í úthöfum nota menn rannsóknarskip sem mæla endurkast af hljóðbylgjum úr jarðlögum hafsbotnsins. Í Bergen heimsóttum við norska fyrirtækið Wavefield Inseis, sem kannaði Drekasvæðið bæði í fyrra og fyrir átta árum, en það er nú í eigu CGG Veritas, helsta fyrirtækis heims á þessu sviði.

Cato Bolstad, forstjóri CGG Veritas í Noregi, segir fyrirtækið búið að safna hljóðbylgjumælingum af 3.500 kílómetra svæði með fullkomnustu rannsóknar og greiningartæknitækni sem fyrirfinnist og niðurstöðurnar lofi góði.

Áhugi alþjóðlegra olíufélaga á að kaupa rannsóknargögnin gefur vísbendingu um stemmninguna fyrir olíuútboði íslenskra stjórnvalda. Cato Bolstad segir áhugann mjög mikinn og fyrirtækið sé ánægt með hversu mikið hafi selst af þeim.

Við hliðina á ráðhúsi Oslóborgar er olíuleitarfyrirtækið Sagex Petrolium með höfuðstöðvar sínar. Sagex er að fimmtungi í eigu íslenskra fjárfesta og með starfsemi í sex löndum. Þar ræður ríkjum jarðeðlisfræðingurinn Terje Hagevang en fáir þekkja betur möguleika Jan Mayen-svæðsins en hann. Hann rannsakaði það fyrst fyrir þrjátíu árum og var lengi ráðgjafi íslenskra og norskra stjórnvalda.

Terje Hagevang telur að bæði olía og gas muni finnast á Drekasvæðinu en það muni taka mörg ár og kalla á mikla vinnu og fjárfestingar. Það var einmitt Terje Hagevang sem lýsti því mati sínu á ráðstefnu í Reykjavík síðastliðið haust að Jan Mayen-svæðið gæti verið álíka verðmætt og Noregshaf, eitt helsta olíusvæði heims.

Fréttastofa Stöðvar 2 mun á næstu dögum flytja fréttaröð um möguleika Íslands.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×