Miðjumaðurinn Xabi Alonso hjá Real Madrid hefur viðurkennt að félagið leggi mest kapp í að vinna Meistaradeild Evrópu á yfirstandandi tímabili.
Sú staðreynd að úrslitaleikur Meistaradeildarinnar verður haldinn á heimavelli Real Madrid, Santiago Bernabeu-leikvanginum, sé aðeins til þess að undirstrika mikilvægi þess enn frekar að Real Madrid hampi titlinum.
„Meistaradeildin er í forgangi hjá Real Madrid á þessu tímabili en það þýðir auðvitað ekki að við leggjum ekki mikla áherslu á deildina á Spáni líka.
Fyrir félag á borð við Real Madrid er krafan náttúrulega alltaf sú að berjast á öllum vígstöðvum en sú staðreynd að úrslitaleikur Meistaradeildarinnar verði spilaður á heimavelli okkar er náttúrulega til þess að kveikja enn frekar í okkur og beina ljósinu á Meistaradeildina.
Samkeppnin þar er hins vegar gríðarlega mikil og við gerum okkur grein fyrir því að fyrir utan spænsku liðin að þá eru gríðarlega sterk lið frá Englandi og Ítalíu í baráttunni," er haft eftir Alonso í spænskum fjölmiðlum í dag.