Innlent

Lögregla haldlagði 100 kannabisplöntur til viðbótar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði í dag hald á 100 kannabisplöntur. Talið er að málið tengist þremur öðrum húsleitum sem hafa verið gerðar undanfarna daga, en þá voru um 800 plöntur gerðar upptækar.

Upp úr hádegi í dag gerði lögreglan húsleit í íbúð á Arnarnesi. Þar voru haldlagðar 100 kannabisplöntur á mismunandi ræktunarstigum og tæki og tól til ræktunar. Einn var handtekinn og hefur hann verið í yfirheyrslum í dag.

Talið er að málið tengist þremur öðrum húsleitum sem hafa verið framkvæmdar undanfarna daga. Alls hefur verið lagt hald á 800 plöntur. Í fyrrakvöld handtók lögreglan par á Keflavíkurflugvelli og mann á sextugsaldri vegna málanna. Parið er skráð fyrir húsnæðunum þar sem ræktunin fór fram en þau segjast saklaus þar sem íbúðirnar hafi verið í útleigu. Það eru þó vísbendingar um að málin tengist, s.s. að eins fánar voru í blómapottum auk þess sem að sérsmíðaðir kassar sem notaðir voru undir plönturnar voru eins. Þá hafa tveir til viðbótar verið handteknir. Þeim hefur öllum verið sleppt úr haldi.

Þá gerði lögreglan líka húsleit í Kópavogi síðdegis. Þar var lagt hald á um 200 grömm af kannabisefnum sem var búið að pakka inn í söluumbúðir. Gangverðið á gramminu er í kringum 3500 krónur og var því verðmæti efnanna um 700.000 krónur

Samkvæmt heimildum fréttastofu rannsakar lögreglan nú hvort þarna hafi verið á ferð söluaðili fyrir ræktendur plantnanna sem hafa fundist undanfarna daga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×