Mótmælendurnir sem voru handteknir í alþingisgarðinum fyrr í dag voru fluttir inn í þinghúsið og þaðan í lögreglubíla í bílakjallara sem er undir Alþingishúsinu. Pattstaða hefur verið í garðinum þar sem mótmælendur hafa neitað að fara þaðan og lögregla hafði því ekki getað komið hinum handteknu á brott. Þeir hafa nú verið fluttir á lögreglustöðina við Hverfisgötu.
Þegar lögregla ætlaði að keyra út með þá handteknu fjölmenntu mótmælendur fyrir hlið bílakjallarans svo lögreglubíllinn komst ekki út. Mótmælendur bæði fyrir innan og utan bílakjallarann æptu slagorðið „Vanhæf ríkisstjórn".
Mótmælendurnir sem stóðu fyrir utan hliðið reyndu síðan að taka niður öryggismyndavél sem þar var og beitti lögreglan þá piparúða á hópinn.
Um hundrað lögreglumenn voru í garðinum og þegar mótmælendum varð ljóst að verið væri að færa hina handteknu inn í þinghúsið færðist aukin harka í leikinn sem endaði með því að þrír til viðbótar voru handteknir. Lögregla beitti piparúða á mótmælendurna eins og hún hefur gert ítrekað í dag.