Innlent

Vil­hjálmur tekur oddvitaslaginn í Reykja­nes­bæ

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Vilhjálmur Árnason er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Vilhjálmur Árnason er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Vísir/Anton Brink

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að gefa kost á sér í oddvitasætið á lista Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ. Prófkjör fer fram 31. janúar.

Frá þessu greinir Vilhjálmur í færslu á Facebook. Hann hafði áður verið orðaður við oddvitasætið og sagðist í samtali við fréttastofu íhuga alvarlega að gefa kost á sér. 

„Fyrir tveimur árum breyttist líf okkar fjölskyldunnar skyndilega þegar við þurftum að yfirgefa heimilið okkar í Grindavík. Við Silla settumst þá að í Reykjanesbæ – enda var bærinn fyrir löngu orðinn okkar annað heimili,“ segir Vilhjálmur á Facebook.

„Á þessum erfiðu tímum tóku bæjarbúar utan um fjölskyldu mína. Það var ekki sjálfsagt, en það var mannlegt og það gleymist aldrei.“

Í samtali við fréttastofu kveðst Vilhjálmur ætla að halda þingmennsku áfram fram að kosningum. Sveitarstjórnarkosningar fara fram 16. maí næstkomandi. 

Ljóst er að oddvitaslagur er í húfi en Ásgeir Elvar Garðarsson, viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri bílaleigunnar Geysis, gefur sömuleiðis kost á sér í oddvitasætið. Þá gefur Unnar Stefán Sigurðsson, skólastjóri í Háaleitisskóla í Reykjanesbæ, kost á sér. 

„Við þurfum ábyrgari rekstur sveitarfélagsins til að geta lækkað skatta á heimilin. Við þurfum skýra framtíðarsýn í skipulagsmálum sem virðir drauma fólks um eigið heimili og fjölbreytt búsetuform. Og við þurfum að setja börnin raunverulega í fyrsta sæti – með aðgengi að leikskólum, sterkum íþróttafélögum og bestu grunnskólum landsins.

Reykjanesbær er stórveldi og ég óska eftir stuðningi ykkar í prófkjörinu svo við getum saman tryggt að allir fái að láta ljós sitt skína,“ segir Vilhjálmur á Facebook. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×