Innlent

Náttúruminjasafnið í kössum næstu árin

flóð Ómetanlegir gripir voru í hættu þegar flæddi inn í sýningarrými við Hlemm 2006, þar á meðal geirfuglinn. mynd/náttúrufræðistofnun
flóð Ómetanlegir gripir voru í hættu þegar flæddi inn í sýningarrými við Hlemm 2006, þar á meðal geirfuglinn. mynd/náttúrufræðistofnun

Fjárveitingar til Náttúruminjasafns Íslands, sem er eitt höfuðsafna þjóðarinnar, verða skornar niður um allt að fjórðung. Þá er rætt um breytt hlutverk Þjóðmenningarhússins og jafnvel lokun þess, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Forstöðumaður Þjóðmenningarhússins hafnar því.

„Ég er ekki með nákvæma tölu en mig grunar að niðurskurðurinn til okkar verði allt að 25 prósent“, segir Helgi Torfason, safnstjóri Náttúruminjasafns Íslands.

„Ef þetta verður niðurstaðan þá er ljóst að safnið opnar ekki á næstunni. Þegar var búið að skera okkur niður um rúmlega tólf prósent á þessu ári og þetta kemur svo til viðbótar.“

Helgi segir að á stuttum tíma hafi málefni náttúruminjasafns þróast frá því að reisa átti glæsilegt safnahús, til þess að nú verði ekki starfrækt safn á næstu árum sem varpi ljósi á náttúru Íslands á heildstæðan hátt.

Náttúrugripasafn var lengi starfrækt í bráðabirgðahúsnæði við Hlemm. Með setningu laga um Náttúruminjasafn Íslands 2007 lauk hlutverki þess sem sýningarsafns á vegum Náttúrufræðistofnunar. Því var svo lokað vorið 2008. Á fjárlögum 2009 var Náttúruminjasafni Íslands úthlutað 27 milljónum króna til reksturs.

Höfuðsöfn eru skilgreind í Safnalögum. Þau eru Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands og ber þeim að vera leiðandi í stefnumótun á landsvísu hvert á sínu sviði. Niðurskurður til Þjóðminjasafnsins og Listasafns Íslands, hinna höfuðsafnanna tveggja, verður að öllum líkindum um sex prósent á fjárlögum næsta árs.

Helgi segir að skilaboðin frá stjórnvöldum séu þau að náttúran sé ómerkilegri en listir og þjóðminjar. Það hljóti þó að skjóta skökku við þegar landið sé ávallt kynnt sem náttúruperla í kynningum sem beint er að ferðafólki.

Þær fáu sýningar sem settar hafa verið upp að undanförnu og tengjast náttúru Íslands hafa verið settar upp í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem náttúrugripasafnið hóf starfsemi sína á 19. öld.

Hlutverk Þjóðmenningarhússins hefur verið til skoðunar um alllangt skeið og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur lokun þess verið rædd. Markús Örn Antonsson, forstöðumaður Þjóðmenningarhússins, segir þær fréttir ekki eiga við rök að styðjast. Stofnunin hefur heyrt beint undir forsætisráðuneytið en flyst til menntamálaráðuneytisins 1. október næstkomandi.

svavar@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.