Enski boltinn

Guðjón vill fá fleiri leikmenn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Crewe.
Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Crewe. Nordic Photos / Getty Images

Guðjón Þórðarson, knattspyrnustjóri Crewe Alexandra, ætlar að fá fleiri leikmenn að láni frá öðrum félögum á næstu dögum og vikum.

Mörgum leikjum Crewe hefur verið frestað undanfarnar vikur og er því útlit fyrir þétta dagskrá framundan. Leik Crewe gegn Bristol á þriðjudaginn var frestað og er það í fimmta sinn sem leik er frestað hjá Crewe á tímabilinu.

Því blasir við að Crewe þurfi að leika fjórtán leiki á næstu vikum eða til loka marsmánaðar.

Guðjón hefur þegar fengið markvörðinn John Ruddy og varnarmanninn Marlon Broomes en hann vill fá fleiri leikmenn eftir því sem Neil Baker, aðstoðarmaður hans, segir.

„Við erum ágætlega staddir hvað varðar fjölda leikmanna en ætlum samt að reyna að styrkja liðið enn frekar. Við erum ekki með neinn í sigtinu eins og er en við munum fylgjast með leikjum varaliða á næstunni. Ef einhver stendur okkur til boða munum við reyna að fá viðkomandi til okkar," sagði Baker.

Crewe er í 22. sæti af 24 liðum í ensku C-deildinni með 22 stig en fjögur neðstu liðin falla um deild í vor. Crewe og tvö neðstu liðin hafa öll leikið 27 leiki en Leyton Orient, sem er með 27 stig í 21. sæti, hefur leikið 30 leiki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×