Innlent

Cessna vélin var nýseld - Líklega í ferjuflugi

Andri Ólafsson skrifar
Cessna 310. Tekið skal fram að flugvélin á myndinni er ekki sú sem saknað er.
Cessna 310. Tekið skal fram að flugvélin á myndinni er ekki sú sem saknað er.

Cessna 310 flugvélin sem fórst í dag var að öllum líkindum í svokölluðu ferjuflugi. Hún var samkvæmt heimildum Vísis nýlega seld og því er talið að seljandi vélarinnar, eða einhver á hans vegum, hafi verið að fljúga henni til síns nýja eigenda þegar flugslysið varð í dag.

Sá sem er saknað er Bandaríkjamaður. Hann var einn í vélinni.

Vélin var á leið frá Narsassuaq í Grænlandi til Reykjavíkur en til Grænlands kom vélin frá Goose flugvelli í Kanada og þar áður frá Albany í Bandaríkjunum.

Hún var um 50 sjómílur vestur af Keflavík þegar hún missti afl á öðrum tvegja hreyfla sinna. Þegar flugmaðurinn gat ekki fært eldsneyti frá hinum aflvana hreyfli til þess sem ennþá gekk varð honum ljóst að hann gæti ekki haldið sér mikið lengur á flugi.

Klukkan 16:10 hvarf vélin svo af ratsjá. Mikið lið er við leit en aðstæður eru afar slæmar. Skyggni slæmt og ölduhæð mikil.

Björgunarbátar eru venjulega í Cessna 310 vélum en ekki er vitað hvort flugmaðurinn hafi náð að koma honum á flot.

 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×