Innlent

OR vill standa við gerða samninga um Hitaveitu Suðurnesja

Breki Logason skrifar
Kjartan Magnússon stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.
Kjartan Magnússon stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.

„Við viljum standa við gerða samninga en það er alveg ljóst að samkeppniseftirlitið hefur eitthvað við þetta mál að athuga og því er ekkert um það að segja fyrr en úrskurður þeirra fellur," segir Kjartan Magnússon stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur samkeppniseftirlitið gert athugasemd við kaup Orkuveitur Reykjuvíkur á 15% hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Í sumar var ákveðið að OR keypti þennan hlut en ekkert hefur orðið af kaupunum vegna aðkomu samkeppniseftirlitsins.

Forúrskurður hefur fallið í málinu og samkvæmt andmælabréfi þá getur OR ekki gengið til kaupanna. „Verði það hin endanlega niðurstaða þá er ljóst að við þurfum að taka mið af því. Okkur hefur verið gefið kostur að andmæla sem við höfum gert með ýmsu hætti. Okkar sjónarmið hafa komið fram en þetta andmælabréf mætti vera skýrara," segir Kjartan sem vonar að hinn endanlegi úrskurður verði skýrari.

Kjartan veit ekki hvenær hans er að vænta og spurðist síðast fyrir um það í dag. „Það er ekkert hægt að segja hvenær hann kemur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×