Innlent

Gæti þurft að draga verulega úr þjónustu

Lögreglan á Suðurnesjum gæti þurft að draga verulega úr þjónustu á næstu mánuðum sökum fjárskorts. Rekstraráætlun embættisins gerir ráð fyrir 200 milljónum króna fram yfir fjárheimildir. Yfirmenn lögreglunnar á Suðurnesjum funda nú með fulltrúum dómsmálaráðuneytisins.

Umsvif lögreglunnar á Suðurnesjum hafa aukist töluvert á síðastliðnum árum en á sama tíma hefur lögreglumönnum í umdæminum fækkað.

Eins og fram kom í fréttum Stöðvar tvö í gær störfuðu um 90 lögreglumenn í umdæminu áður en kom til sameiningu lögreglu-, sýslumanns- og tollembætta. Nú eru þeir hins vegar um 70 talsins.

Í rekstraráætlun lögregluembættisins fyrir þetta ár er gert ráð fyrir 200 milljóna króna framúrkeyrslu miðað við fjárheimildir. Hefur dómsmálaráðuneytið kallað eftir ítarlegum upplýsingum frá embættinu vegna þessa.

Yfirmenn lögreglunnar á Suðurnesjum mættu til fundar með fulltrúum dómsmálaráðuneytisins í morgun en gert er ráð fyrir því að fundurinn standi fram eftir degi. Meðal þess sem á skoða er möguleg skekkja í rekstrargrunni embættisins sem fjárheimildir eru byggðar á.

 

Í tilkynningu sem ráðuneytið sendi frá sér um helgina kemur fram að ekki hafi verið um neinn niðurskurð að ræða á fjárheimildum embættisins frá fyrri árum. Þá segir enn fremur að ekki komi til breytinga á starfsemi embættisins fyrr en fyrir liggur hvað veldur umræddri framúrkeyrslu.

Fái embættið ekki aukafjármagn gæti komið til verulegs niðurskurðar, meðal annars fækkun lögregluþjóna. Það mun þó væntanlega skýrast seinna í dag þegar fundi fulltrúa lögreglunnar á Suðurnesjum og dómsmálaráðuneytisins lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×