Erlent

Um ellefu þúsund heimili án rafmagns í Englandi

Hátt í 11 þúsund heimili á suðvesturströnd Englands og í Wales eru án rafmagns þar sem nú geysar mikill stormur. Samgöngur hafa víða lamast en búist er við að vindhraðinni nái hamarki seinni partinn í dag.

Óveðrið geisar nú á suður- og vesturströnd Englands auk þess sem mjög hvasst er í Wales, á Norður-Írlandi og í Skotlandi. Vindhraði í mestu hviðunum nær allt að 35 metrum á sekúndum auk þess sem storminum fylgir mikil úrkoma. Flóðviðvaranir hafa verið gefnar út á sjö svæðum við ströndina. Áætlað er að óveðrið nái hámarki seinni partinn í dag og að það nái yfir stóran hluta Bretlandseyja.

Nú þegar eru hátt í 11 þúsund heimili án rafmagns, þakplötur fjúka á víð og dreif, tré hafa rifnað upp með rótum og rafmagnslínur fallið til jarðar. Íbúar við ströndina er hvattir til að halda sig innandyra og víða hefur fólk hlaðið sandpokum í kringum hús sín til að verjast flóðum.

Samgöngur eru víða í lamasessi og hefur nokkur röskun orðið á innanlandsflugi þótt enn hafi ekki orðið miklar tafir á millilandaflugi. Farþegar á Heathrow flugvelli sem og á Gatwick hafa þó verið beðnir um að fylgjast vel með upplýsingum.

Þá lenti 7500 tonna tankskip frá Svíþjóð með 13 manna áhöfn innanborðs í vandræðum úti við suðurströnd Englands og var björgunarlið sent á vettvang til að aðstoða áhöfnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×