Innlent

Erill hjá lögreglu í Eyjum um páskahelgina

Mynd/Vísir

Töluverður erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum um páskahelgina og voru meðal annars kærðar þrjár líkamsárásir.

Tvær þeirra þeirra áttu sér stað á skemmtistöðum bæjarins, önnur á veitingastaðnum Lundanum þar sem maður var skallaður í andlitið en hin á veitingastaðnum Drífanda þar sem ósætti varð á milli tveggja manna sem endaði með handalögmálum. Þriðja árásin átti sér stað í heimahúsi sem endaði með því að sá sem fyrir árásinni varð þurfti að leita til læknis vegna áverka sem hann fékk. Enginn slasaðist þó alvarlega eftir því sem segir í dagbók lögreglunnar. Enn fremur var hátt í 20 ungmennum vísað út af skemmtistöðum bæjarins þar sem þau höfðu ekki aldur til að vera þar inni.

Þá voru þrjú umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar. Í tveimur tilvikum var um minniháttar óhöpp að ræða en í einu tilviki var um töluvert harðan árekstur að ræða þar sem bifreið var ekið á kyrrstæða bifreið í Búhamri. Þrír ungir menn voru í bifreiðinni og þurftu þeir allir að leita læknisaðstoðar á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja. Meiðsl þeirra reyndust hins vegar ekki vera alvarleg. Önnur bifreiðin er töluvert skemmd og var óökufær eftir óhappið að sögn lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×