Innlent

Höfuðkúpa að líkindum erlend

Höfuðkúpan sem fannst við Meðalfellsvatn á páskadag er að öllum líkindum erlend og var eitt sinn í eigu læknis sem lést fyrir nokkrum árum. Lögreglan telur málið að mestu upplýst.

Enn er þó eftir að rannsaka höfuðkúpuna nánar og aldursgreina hana en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu virðist málið liggja nokkuð ljóst fyrir. Höfuðkúpan var hluti af innanstokksmunum í hjólhýsi sem stóð við Meðalfellsvatn og fauk í vonskuveðri í janúar. Við það splundraðist það með þeim afleiðingum að innanstokksmunirnir dreifðust um svæðið.

Það var svo á páskadag sem maður fann höfuðkúpuna þar sem hún lá innan um aðra hluti úr hjólhýsinu og gerði lögreglu viðvart. Eigandi hjólhýsisins hafði síðan samband við lögreglu og sagðist hafa fengið höfuðkúpuna að gjöf frá tengdasyni sínum. Tengdasonurinn hefði erft höfuðkúpuna frá afa sínum sem var læknir og lést fyrir nokkrum árum.

Samkvæmt upplýsingum frá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu telst málið að mestu upplýst. Líklegt er talið að höfuðkúpan sé erlend og hafi komið hingað til lands fyrir allmörgum árum.

Frumrannsókn á höfuðkúpunni sýndi hins vegar að hún var úr konu eða barni sem lést fyrir 10 til 30 árum en tæknideild lögreglunnar vinnur nú að því að aldursgreina hana með nákvæmari hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×