Innlent

Verða að tryggja að yfirgefin hús séu mannheld

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir það algjörlega á ábyrgð eigenda yfirgefinna húsa í miðbænum að tryggja að þau séu mannheld. Hann furðar sig á því að þeir hafi ekki tryggt húsin betur og boðar aðgerðir gangi eigendurnir ekki betur frá húsunum.

Greint var frá því í fréttum í morgun að eldur hefði kviknað í yfirgefnu húsi við Hverfisgötu 33-34, en til stendur að rífa það. Reykkafarar voru sendir inn í húsið til að kanna hvort það væri ekki örugglega mannlaust en fundu þá sofandi útigangsmann í risi þess og björguðu honum út. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kveikt er í húsinu og hefur slökkviliðið vaxandi áhyggjur af frágangi húsa sem bíða niðurrifs.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu segir menn þar á bæ hafa bent á í gegnum tíðina að það geti verið fólk í þessum húsum og slökkviliðinu beri að leita að því. „Við erum að leita í húsum sem eru kannski reykfyllt og þar eru jafnvel göt í gólfum og því mikil hætta," segir Jón Viðar. Hann bendir einnig á að slökkviliðsmenn eigi líka á hættu að stinga sig á sprautunálum þar sem fíkniefnaneytendur haldi sig oft í yfirgefnum húsum. „Mér finnst bagalegt að bjóða mínum mönnum upp á slíkt vinnuumhverfi," segir Jón Viðar.

Geta byrgt glugga á kostnað eigenda

Hann kallar eftir aðgerðum hjá eigendum húsanna og segir greinilegt að þeir hafi hingað til ekki staðið sig. Aðspurður hvað slökkviliðið geti gert í málinu segir Jón Viðar að það geti skipað viðkomandi aðila að byrgja glugga. „Ef ekki er orðið við því þá getum við gert það á kostnað eigandans," segir Jón Viðar og segist vonast til að eigendur bregðist nú við.

Bent hefur verið á að eigendur yfirgefinna húsa þurfi að bíða eftir leyfum til þess að rífa hús þangað til borgaryfirvöld hafa samþykkt það sem koma á í staðinn. Aðspurður segir Jón Viðar að á meðan leyfi til niðurrifs sé ekki fyrir hendi sé það á ábyrgð eigendanna að halda húsi lokuðu. „Menn eru þarna með ákveðnar eignir og meðan þær eru uppistandandi bera þeir ábyrgð á þeim. Það er að mínu mati aukaatriði hversu langan tíma það tekur að fá leyti til að rífa hús. Menn eiga að hafa þau örugg," segir Jón Viðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×