Erlent

Vilja banna reykingakvikmyndir innan 18 ára

Ingrid Bergman og Humprey Bogart í Casablanca.
Ingrid Bergman og Humprey Bogart í Casablanca. MYND/Warner Bros

Hópur sem berst gegn reykingum í Bretlandi hefur farið fram á að allar kvikmyndir sem innihalda reykingaratriði verði bannaðar innan 18 ára í landinu.

SmokeFree Liverpool samtökin segja að nauðsynlegt sé að vernda ungt fólk með þessum hætti. Ef ekki verið gripið til þessa ráðs á landsvísu séu þau tilbúin að berjast fyrir því í Liverpool. Breska kvikmyndaeftirlitið sem flokkar myndir segir að slíkar aðgerðir séu ekki auðsóttar og heldur því fram að nú þegar sé farið eftir fullnægjandi ráðstöfunum.

Andy Hull yfirmaður samtaka um verndun almennings og stjórnarformaður SmokeFree Liverpool segir að bein tengsl séu á mailli þess að ungt fólk sjái átrúnaðargoð sín reykja og ákvörðun þeirra sjálfra að byrja að reykja.

Í viðtali á BBC 5 útvarpsstöðinni sagði hann að nýjustu tölur frá árinu 2000 sýndu að 480 myndir hefðu verið með reykingaratriðum; „Af þrjú þúsund börnum eða ungu fólki í Liverpool sem byrjaði að reykja það ár, byrjuðu yfir helmingur, eða 1.650, vegna áhrifa frá kvikmyndum."

Sue Clark talsmaður kvikmyndaeftirlitsins hélt því hins vegar fram við AP fréttastofuna að engin þörf væri á að flokka allar myndir í 18 ára flokkinn af því að þær sýndu einhvern reykja. Hún sagði reykingaratriði á fallanda fæti í bransanum og tók tvö dæmi, Atonement kvikmyndina sem bönnuð var innan 15 og hina klassísku Casablanka sem er leyfð öllum aldurshópum. Hún þyrfti þá að verða bönnuð innan 18.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×