Erlent

Átök geisa í Tíbet

Enn er barist á götum úti í borginni Lhasa í Tíbet og eru 10 sagðir látnir eftir átök gærdagsins. Stjórnvöld hafa gefið mótmælendum frest fram á mánudag til að hætta mótmælum.

Mótmælin hófust síðastliðin mánudag en þá var uppreisnarinnar gegn Kína 1959 minnst. Líkt og í Búrma síðastliðinn september voru það búddamunkar sem hófu mótmælin en fleiri bættust í hópinn þegar leið á vikuna. Það var svo í gær sem skarst í brýnu milli mótmælenda og kínverskra öryggissveita.

Haft er eftir ríkisfjölmiðli í landinu að 10 manns hafi látist í óeirðunum í gær, allt óbreyttir borgarar. Talsmenn útlagastjórnarnar Tíbet, undir stjórn Dalai Lama, fullyrða hins vegar að hátt í hundrað manns hafi látið lífið.

Yfirvöld hafa gefið mótmælendum frest fram á mánudag til að láta af ofbeldinu, annars verði gripið til harðari aðgerða. Kínversk stjórnvöld segjast þó hafa fulla stjórn á ástandinu. Málið er hið flóknasta fyrir kínverska ráðamenn. Þeir vilja fyrir alla muni forðast blóðsúthellingar fyrir Ólympíuleikana í Peking, en verða þó að sýna staðfestu gegn sjálfstæðistilburðum í Tíbet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×