Innlent

Dómsmálaráðherra vill skýr svör

Dómsmálaráðuneytið hefur kallað forsvarsmenn lögregluembættisins á Suðurnesjum á sinn fund vegna fyrirhugaðra sparnaðaraðgerða hjá embættinu. Ráðuneytið vill fá ítarlegar upplýsingar og útskýringar á því hvers vegna rekstaráætlun embættisins fyrir árið í ár er ríflega 200 milljónum hærri en ráð er gert fyrir í fjárlögum.

Nýtt embætti lögreglustjórans og sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli varð til hinn 1. janúar í fyrra. Þá voru sameinuð ýmis lögreglu, sýslumanns og tollaembætti á svæðinu. Kostnaður nýja embættisins fór tæpum 50 milljónum fram úr áætlun í fyrra og í rekstraráætlun embættisins fyrir árið í ár er gert ráð fyrir að hann fari um 200 milljónum fram yfir fjárheimildir. Eins og við greindum frá í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi þá liggja nú á borði dómsmálaráðherra hugmyndir um hvernig hægt sé að koma kostnaðinum niður í þá upphæð sem gert er ráð fyrir í fjárlögum. Í þeim er meðal annars gert ráð fyrir að ekki verði ráðið í sumarafleysingar hjá embættinu og að fastlaunasamningum verði sagt upp. Eins er lagt til að fækka stöðugildum, setja á yfirvinnubann, draga saman í kaupum á búnaði og skila inn tveimur lögreglubílum.

Fréttastofa óskaði í dag eftir viðbrögðum ráðherra við fréttinni. Þau svör fengust frá aðstoðarmanni hans að dómsmálaráðherra myndi ekki tjá sig um málið að svo stöddu. búið væri að boða ráðamenn lögregluembættisins á fund ráðherra á mánudag þar sem farið verður yfir stöðuna.

Þegar fréttastofa leitaði svara við því hvers vegna gert væri ráð fyrir því að rekstur embættisins færi langt yfir fjárheimildir fengust þau svör að málið væri á viðkvæmu stigi. Því vildu forsvarsmenn þess ekki tjá sig við fjölmiðla að svo stöddu. Heimildir fréttastofu herma að vanda embættisins á Suðurnesjum megi rekja nokkuð aftur í tímann. Mun færri lögreglumenn vinna nú hjá embættinu en gerðu fyrir sameininguna. Vonast menn til að ná sáttum við ráðherra. Ef ekki sé ekki um annað að ræða en að standa við fyrirhugaðan niðurskurð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×