Innlent

Fangelsi og há fjársekt fyrir skattsvik og bókhaldsbrot

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag konu í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfellt skattalaga- og bókhaldsbrot sem framkvæmdastjóri, stjórnarformaður og prókúruhafi einkahlutafélags. Þá var hún og fyrirtækið dæmd til að greiða 78 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs.

Konan var ákærð fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum á tilteknum tímabilum á árunum 2006 og 2007 og þannig komist hjá því að greiða nærri 40 milljónir í virðisaukaskatt.

Þá var hún einnig ákærð fyrir að hafa ekki staðið skil á skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda vegna tímabilanna febrúar til og með júní 2007 og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna einka­­­hluta­félagsins vegna tímabilanna nóvember og desember 2006 og febrúar til og með júní 2007. Þar var alls um að ræða tæpar tólf milljónir.

Enn fremur var hún ákærð fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald og varðveita bókhalds­gögn með reglubundnum hætti vegna rekstrarársins 2006 og janúar til og með ágúst rekstrar­árið 2007.

Konan játaði með afdráttarlausum hætti brot sín og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. Þá var einnig litið til þess að konan hefði hreint sakavottorð. Sem fyrr segir hlaut hún átta mánaða fangelsisdóm sem skilorðsbundinn er til tveggja ára og svo ber henni og félaginu að greiða 78 milljónir króna í sekt innan fjögurra vikna. Geri hún það ekki kemur til tólf mánaða fangelsi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×