Innlent

Landsvirkjun hagnast umtalsvert á hærra álverði

Álverð heldur áfram að hækka á heimsmarkaði og hefur hækkað um 34 prósent frá áramótum. Landsvirkjun hagnast umtalsvert á þessu þar sem raforkuverðið tekur mið af heimsmarakðsverði á áli.

Þessi mikla hækkun kemur í kjölfar verulegra hækkana í fyrra. Ástæðurnar eru einkum þrjár. Verð á hráefni til álframleiðslu fer hækkandi, orkuverð til framleiðslunnar sömuleiðis og í þriðja lagi hafa miklar truflanir orðið á álframleiðslu í Kína í vetur vegna óveðra, en Kína er stærsti álframleiðandi í heimi.

Þessu til viðbótar eru fjárfestar farnir að fjárfesta í ýmsum hrávörum eins og málmum, korni og hveiti í stað verðbréfa sem ýtir á enn frekari verðhækkanir.

Núgildandi samningar Landsvirkjunar við álframleiðendur í landinu voru alli gerðir þegar verðið á heimsmarkaði var nokkuð innan við tvö þúsund dollara á tonnið en það er nú vel yfir þrjú þúsund dollara. Þetta kemur ekki aðeins Landsvirkjun til góða heldur eykst útflutningsverðmæti af hverju tonni af áli jafnt og þétt sem slær á viðskipahallan við útlönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×