Innlent

Sýknaður af ákæru um kannabisræktun

MYND/Páll Bergmann

Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað mann af ákæru um að hafa ræktað og átt 25 kannabisjurtir og lítilræði af kannabisefnum sem fundust við húsleit á heimili hans.

Lögregla gerði húsleit í íbúð mannsins þegar hann var staddur í útlöndum og fann efnin í geymslu sem brotist hafði verið inn í. Maðurinn viðurkenndi hjá lögreglu að hafa staðið að ræktuninni en dró þann framburð til baka fyrir dómi. Skýrði hann það á þann hátt að lögreglan hefði sagt sér að um svo lítið magn væri að ræða að ekki yrðu frekari eftirmál og því hafi hann talið einfaldast að ljúka málinu með játningu.

Neitaði hann hins vegar að eiga kannabisplönturnar en sagðist eiga ræktunarbúnaðinn sem hann hefði notað við tilraunaræktun á tómötum. Benti hann á að hann hefði verið í útlöndum en vinur sinn hefði verið með lykil að íbúðinni og farið þangað til að gefa tveimur páfagaukum að borða fyrir sig á meðan hann dveldist erlendis.

Taldi dómurinn ljóst út frá gögnum málsins að brotist hefði verið inn í geymsluna og hurðarlæsing skemmd þannig að hurðin lokaðist ekki eftir það. Ákærði hefði ekki vitað um innbrotið og þá hefði hann sagt að vinur sinn hefði verið staðinn að því að rækta kannabis.

Segir í dómnum að engin rannsókn hafi farið fram á innbrotinu í geymsluna né ákærði spurður nokkuð um það hjá lögreglu.  Því yrði sakfelling mannsins ekki reist eingöngu á þeirri staðreynd að fíkniefnin hafi fundist í íbúð í umsjá ákærða og á játningu hans fyrir einum lögreglumanni. Því bæri að sýkna hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×