Innlent

Segir Júlíus fara vísvitandi með rangt mál

MYND/Heiða

Júlíus Vífill Ingvarsson fer vísvitandi með rangt mál í gagnrýni sinni á skýrslu stýrihóps í REI-málinu að sögn Sigrúnar Elsu Smáradóttur, borgarfulltrúa Samfylkinginnar. Hún vísar á bug ásökunum um vanhæfni.

Fjallað var meðal annars um lokaskýrsla stýrihóps í REI-málinu svokallaða á löngum fundi borgarstjórnar á þriðjudaginn. Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi sjálfstæðismanna, gagnrýndi skýrsluna og þá sérstaklega fulltrúa minnihlutans í stýrihópnum.

Að mati Júlíusar var aðkoma þáverandi minnihluta að REI-málinu meiri en áður hefur verið gefið í skyn og það grafi undan trúverðugleika skýrslunnar. Júlíus sagði að það hefði komið fram á fundi borgarstjórnar í fyrrinótt að Svandís Svavarsdóttir hefði ásamt Sigrúnu Elsu Smáradóttur og Degi B. Eggertssyni tekið þátt í því að raða saman listum yfir valda starfsmenn sem fengu að njóta kaupréttar í REI-málinu.

Sigrún Elsa segir að Júlíus Vífill sé þarna vísvitandi að fara með rangt mál. Þau hafi margoft skýrt sína aðkomu að þessu máli, bæði í blaðagreinum og svo hafi Svandís Svavarsdóttir farið ágætlega yfir þetta á fundi borgarstjórnar í fyrradag. Hún hefði einnig gert það sjálf.

„Júlíus Vífill veit það jafnvel og ég að fulltrúar í minnihluta stjórna ekki ákvörðunum sem teknar eru í stjórnum í borginni. Það er bara þannig," segir Sigrún Elsa.

Sigrún vísar einnig á bug ásökunum um vanhæfni fulltrúa í stýrihópnum. Skýrslan standi alveg. Skýrslan væri alls ekki það sem hún er í dag ef hvorki hún né eða Svandís Svavarsdóttir hefðu ekki komið að gerð hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×