Innlent

Bankaræningi fékk bakþanka

Útibúi Kaupþings var lokað í kjölfar ránsins.
Útibúi Kaupþings var lokað í kjölfar ránsins. MYND/Einar

Maðurinn sem handtekinn var í Firðinum í Hafnarfirði skömmu fyrir hádegi vegna tilraunar til bankaráns í útibúi Kaupþings í verslunarmiðstöðinni er einn af góðkunningjum lögreglunnar.

Maðurinn, sem er 36 ára, kom inn í útibúið og hrópaði að um bankarán væri að ræða án þess þó að ógna fólki. Hann fékk einhverja fjármuni afhenta, þó ekki mikla, og fór út úr útibúinu en að sögn lögreglu var hann vafrandi fyrir utan útibúið og íhugaði að skila peningunum þegar hann var handtekinn. Hann var færður í fangageymslur í kjölfarið en talið er að hann eigi við geðræn vandamál að stríða.

Að sögn Benedikts Sigurðssonar, talsmanns Kaupþings, var útibúinu lokað í kjölfar atviksins en óvíst er hvenær það verður opnað aftur. Benedikt segir að ákveðið ferli fari í gang í tilvikum sem þessum. Hann býst við að þeim starfsmönnum útibúsins sem það vilja verði boðin áfallahjálp.

Þetta er annað bankaránið hér á landi á árinu en í byrjun febrúar réðst maður inn í útibú Glitnis við Lækjargötu vopnaður exi og komst á brott með um eina milljón króna. Hann var þó handtekinn skömmu síðar og viðurkenndi verknaðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×