Innlent

Hætta við breytingar á kortaskilmálum

Kaupþing hefur ákveðið að hætta við umdeildar breytingar á kortaskilmálum bankans. Fjölmargar kvartanir bárust persónunefnd eftir að Stöð tvö hóf að fjalla um málið í síðustu viku.

Skilmálinn átti að taka gildi næstkomandi mánudag og ná til allra greiðslukorta Kaupþings. Markmiðið var að setja alla núgildandi kortaskilmála undir einn hatt.

Nokkur ákvæði í hinum nýja skilmála þóttu umdeild þar á meðal ákvæði sem gaf Kaupþingi heimild til að vinna persónuupplýsingar úr kortanotkun viðskiptavinar.

Átti að nota þær upplýsingar til að búa til persónusnið svo hægt væri að senda viðkomandi viðskiptavini tilboð meðal annars í formi sms skeyta.

Stöð tvö fjallaði ítarlega um málið í síðustu viku og í kjölfarið höfðu margir samband við Kaupþing til að lýsa yfir óánægju sinni með breytingarnar. Þá bárust persónuvernd fjölmargar athugasemdir frá viðskiptavinum bankans vegna málsins og þar af tvær skriflegar kvartanir.

Í dag ákvað Kaupþing svo að afturkalla breytingarnar. Fram kemur í yfirlýsingu sem bankinn sendi frá sér nú síðdegis að skilmálinn hafi valdið misskilningi og óánægju meðal viðskiptavina og því hafi verið ákveðið að falla frá breytingunum.

Bankinn biður viðskiptavini sína ennfremur afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið.

Benedikt Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Kaupþings, segir að ákvæðið um söfnun persónuupplýsinga hafi vakið óánægju margra.

"Ég held að óánægjan hafi fyrst og fremst beinst að því. það komst kannski ekki nægilega til skila af okkar hálfu að það stóð aldrei til að safna persónuupplýsinum umfram það sem almennir skilmálar e-kortsins svokallaða heimila okkur. Það stóð aldrei til að safna neinum öðrum upplýsingum," segir Benedikt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×