Innlent

Hundurinn Moli ljón í vegi smyglara

Moli, fíkniefnahundur fangelsins á Litla-Hrauni, kom upp um tvö fíkniefnamál í fangelsinu í dag. Í báðum tilvikum var um gesti að ræða.

Tvær konur komu í fangelsið í dag til þess að heimsækja fanga. Hundurinn Moli gaf til kynna að þær væru með fíkniefni í fórum sínum og voru konurnar því fluttar á lögreglustöðina á Selfossi.

Önnur konan framvísaði þar eitthvað af læknadópi sem hún hugðist afhenda einum fanga í heimsóknartíma. Farið var með hina konuna í röntgenskoðun og í henni kom í ljós að hún var með um 30 grömm af amfetamíni falin innvortis.

Konunar voru báðar látnar lausar að þessu loknu en eiga von á ákærum vegna málsins.

Að sögn lögreglunnar á Selfossi er fíkniefnahundurinn Moli sannkallað ljón í vegi þeirra sem hyggjast smygla fíkniefnum inn á Litla-Hraun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×