Innlent

Gagnrýndi samning um rekstur Iðnskólans

MYND/Stefán

Þingmenn Vinstri - grænna gangrýndu í dag menntamálaráðherra fyrir samning sem gerður hefur verið við Menntafélagið ehf. um að reka Iðnskólann í Reykjavík og Fjöltækniskólann og sögðu hann einkavæðingu. Menntamálaráðherra sagði ekki um einkavæðingu að ræða heldur einkarekstur.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, var upphafsmaður utandagskrárumræðu á Alþingi sem bar yfirskriftina einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

Sagði Kolbrún að verkefni væru falin einkaaðilum en ríkið borgaði og þetta væri kallaður einkarekstur. Síðar kæmi svo gjaldtaka. Sagði hún ömurlegt að horfa upp á flokk sem kallaði sig jafnaðarmannaflokk Íslands að láta teyma sig þessa leið. Sakaði hún menntamálaráðherra um að stýra málinu með gerræðislegum hætti og að ekki hefði farið fram mikil umræða um málið.

Hún benti á að mikil óánægja væri meðal starfsmanna Iðnskólans með það hvernig staðið væri að samrunanum. Spurði Kolbrún meðal annars hvernig skólinn yrði betur í stakk búinn til að mennta fólk en Iðnskólinn hefði verið og hvernig tekið yrði á húsnæðismálum og starfsmannamálum skólans. Enn fremur spurði hún hvernig tryggt yrði að innritunargjöld myndu ekki hækka eins og ráðherra hefði lofað í fyrra.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagði ekki um einkavæðingu heldur einkarekstur að ræða, samning um að einkaaðilar tækju að sér þjónustu fyrir hönd ríkisins. Þá sagði hún það þvælu að málið hefði ekki verið rætt víða og sagði að samningurinn yrði kynntur fyrir menntamálanefnd ef áhugi væri fyrir því. Þá hafnaði hún ásökunum um lítið samráð.

Enn fremur sagði ráðherra að allir starfsmenn héldu störfum sínum og réttindum og Iðnskólinn yrði áfram í sama húsnæði. Hún teldi að með þessum samningi væri verið að taka skref til að efla iðnmám í landinu.

Þá fagnaði hún aðkomu Menntafélagsins að málinu og vísaði til þess að einkareknir háskólar hefðu verið brautryðjendur á vissum sviðum hér á landi. Gagnrýni á einkarekstur kæmi yfirleitt úr sömu átt og þær raddir hefðu alltaf haft rangt fyrir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×