Innlent

Engin tengsl á milli Hálslóns og jarðskjálfta við Upptyppinga

Hálslón.
Hálslón. MYND/Rósa

Tveir vísindamenn sem rannsakað hafa fylgni vatnssöfnunar í Hálslón og skjálftavirkni við Upptyppinga segja ekkert benda til þess að skjálftana megi rekja til fyllingar lónsins. Þetta kemur fram á heimasíðu Kárahnjúkavirkjunar en undanfarið hefur gætt mikillar skjálftavirkni við Upptyppinga sem sumir hafa viljað tengja við fyllingu Hálslóns.

„Landsvirkjun fékk dr. Birgi Örn Arnarson, verkfræðing, og dr. Hrafnkel Kárason, verkfræðing og jarðeðlisfræðing, til að greina hvort tölfræðileg fylgni væri milli fyllingar Hálslóns og jarðskjálfta við Upptyppinga árið 2007," segir í frétt á heimasíðu virkjunarinnar. „Þeir könnuðu og pöruðu saman tímabil upp á 1, 7 og 14 daga og litu annars vegar til uppsafnaðrar fyllingar lónsins og hins vegar uppsafnaðrar orku jarðskjálfta á sama tímabili."

Niðurstaðan var á þá leið að ekki væru tölfræðilegar forsendur fyrir ályktun um að fylling Hálslóns hafi haft áhrif á jarðskjálfta við Upptyppinga. „Það er jákvæð tölfræðileg fylgni í gögnunum með tímaseinkun upp á 2 til 6 vikur, þ.e. milli fyllingar í 1, 7 eða 14 daga og jarðskjálfta tveimur til sex vikum seinna," segir í fréttinni og því bætt við að í raun megi snúa dæminu við: „Ef röð viðburða er snúið við sýna tölfræðileg próf hins vegar meiri fylgni. Það fæst sem sé hærri fylgnistuðull þegar könnuð eru áhrif jarðskjálfta við Upptyppinga á fyllingu Hálslóns en þegar könnuð eru áhrif fyllingar Hálslóns á jarðskjálfta við Upptyppinga!"

Fréttina á heimasíðu virkjunarinnar má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×