Innlent

Engin áform í gjaldmiðlamálum þjóðarinnar

MYND/Vilhelm

Nokkrar umræður spunnust um gjaldmiðlamál á Alþingi í dag og kom fram í máli forsætisráðherra við fyrirspurn að ráðuneyti hans hefði engin áform í gjaldmiðlamálum þjóðarinnar.

Það var Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem spurði ráðherra um málið og benti á að fram hefði komið að einhliða upptaka evru væri ekki möguleg. Benti hann á að aðrir gjaldmiðlar væru til en evran, þar á meðal svissneskur franki, og hefðu tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins talað um að skoða þann kost. Vísaði Bjarni þar til orða Sigurðar Kára Kristjánssonar og Illuga Gunnarssonar í þættinum Í lok dags á Vísi í gær og fyrradag.

Sagði Bjarni Harðarson að svissneskur franki væri í sömu hagsveiflu og evran og það væru fordæmi fyrir því að Sviss gerði samning um myntbandalag. Spurði hann ráðherra hvort hann sæi aðra leiki í stöðunni en evru eða krónu.

Ráðherra benti á að þingmaðurinn hefði í fyrirspurn sinni spurt um hvaða áform ráðuneyti hans hefði í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar. Svarið væri einfalt, ráðuneytið hygði ekki á neinar breytingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×