Innlent

Segir oddvita minnihluta hafa komið að kaupréttarlistum

Oddvitar vinstri grænna og Samfylkingarinnar í borgarstjórn áttu beinan þátt í því að raða saman listum yfir þá starfsmenn sem fengu að njóta kaupréttar í REI-málinu að sögn Júlíusar Vífils Ingvarssonar borgarfulltrúa.

Fjallað var um lokaskýrslu stýrihóps í REI-málinu á löngum fundi borgarstjórnar í gær. Stóð fundurinn til að verða tvö í nótt. Var meðal annars deilt um aðkomu þáverandi minnihluta að gerð hinna svokölluðu kaupréttalista en hingað til hefur minnihlutinn neitað að hafa komið beint að gerð þeirra.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að það hafi komið fram í nótt að Svandís Svavarsdóttir, Sigrún Elsa Smáradóttir og Dagur B. Eggertsson hafi tekið þátt í því að raða saman listum yfir valda starfsmenn sem fengu að njóta kaupréttar í hinu svokallaða REI-máli.

Að sögn Júlíusar átti þetta sér stað á stjórnarfundi Orkveitunnar 3. október á síðasta ári. Hann segir ekki vera minnst á þetta atriði í lokaskýrslu stýrihópsins og það hafi áhrif á trúverðugleika hennar. „Ég vil segja að það dragi úr trúverðugleika hennar og ég hefði í þeirra sporum óskað eftir því að einhver annar hefði tekið mitt sæti," segir Júlíus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×