Innlent

Alltaf slæmt þegar framkvæmdir fara fram úr áætlun

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, segir alltaf slæmt þegar framkvæmdir fara fram úr áætlun, en þar á hann við byggingu stúkunnar á Laugardalsvelli sem fór rúmar 600 milljónir fram úr áætlun. Framkvæmdin var sameiginlegt verkefni borgarinnar og Knattspyrnusambands Íslands og nú vill KSÍ, sem annaðist framkvæmdina, að borgin greiði um 400 milljónir í umframkostnað eins og greint hefur verið frá í blaðinu 24 stundum.

Dagur segir að nú sé verið að fara yfir innan borgarinnar hvort hún eigi að taka á sig þennan kostnað. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna, sagði á borgarstjórnarfundi í gær að málið hefði verið sent til innri endurskoðunnar borgarinnar og að á borgarráðsfundi á morgun verði öll spil lögð á borðið. Bygginganefnd var skipuð vegna framkvæmdarinnar og var hún skipuð fulltrúum KSÍ og borgarinnar og var Eggert Magnússon, fyrrverandi formaður KSÍ formaður nefndarinnar.

Stúkan fór langt fram úr áætlunum.

Að sögn Dags fundaði nefndin hins vegar aðeins tvisvar sinnum, og aldrei eftir að nýr meirihluti tók við í borginni í júní 2006. „Þetta var framkvæmd sem KSÍ annaðist," segir Dagur. „Borgin hafði ágæta reynslu af því að láta KSÍ annast þetta enda var sá háttur hafður á þegar hin stúkan var byggð á vellinum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×