Erlent

Mótmæltu Múhameðsteikningum og kvikmynd um Kóraninn

Frá mótmælunum í Kabúl í morgun.
Frá mótmælunum í Kabúl í morgun. MYND/AP

Um þrjú hundruð þingmenn á afganska þinginu tóku þátt í mótmælum í Kabúl í dag þar sem dönskum skopmyndum af Múhameð spámanni og hollenskri kvikmynd um Kóraninn var andmælt.

Þar var þess krafist af Hamid Karzai, forseti landsins, kallaði sendiherra Afganistans í Danmörku og Hollandi heim í mótmælaskyni. Eftir að dönsk blöð endurbirtu myndir af spámanninum fyrir skemmstu hefur reiðialda gengið yfir hinn íslamska heim.

Síðast í gær gagnrýndi utanríkisráðherra Afganistan blöðin fyrir athæfið en hann var þá í heimsókn í Danmörku. „Málfrelsið á ekki að nota til að græta milljarða múslíma heldur á að deila upplýsingum með því svo að upplýsing, friður og jafnrétti gildi á milli samfélaga," sagði Rangin Dadfar Spanta eftir fund með dönskum starfsbróður sínum, Per Stig Møller.

Hollenska ríkisstjórnin og Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, hafa lýst yfir áhyggjum af öryggi hollenskra hermanna í Afganistan ef Geert Wilders, hollenskur stjórnmálamaður, birtir mynd sína um Kóraninn. Í henni er að finna harða gagnrýni á múslíma og íslam.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×