Innlent

Illdeilur og átök algeng á meðal lögreglumanna í Skagafirði

Illdeilur og átök hafa ítrekað blossað upp síðustu misseri meðal lögregluliðsins í Skagafirði. Mannaskipti hafa verið tíð og sér ekki fyrir endann á þeim. Sýslumaður segir að menn þurfi að læra að vinna saman.

Sýslumaðurinn í Skagafirði, Ríkharður Másson, áminnti lögreglumann sinn í mars síðastliðnum eftir að lögreglumaðurinn hafði tengst gerð umdeilds myndbands. Þar þótti sýslumanni sem hvatt væri til unglingadrykkju auk þess sem tökur fóru að hluta fram í fangageymslum lögreglu á Sauðárkróki. Eftir áminninguna hefur lögreglumaðurinn verið í launalausu leyfi.

Í gær var sagt frá annarri áminningu sem sýslumaður hefur veitt yfirlögregluþjóni í sex liðum. Og ekki er allt upp talið. Mannaskipti hafa verið tíð í lögreglunni, ríkislögreglustjóri hefur gert úttekt á embættinu, vinnuandi er sagður afleitur og nefnt er að lögregluembættið hafi keyrt gróflega fram úr fjárheimildum sínum í fyrra.

Einn heimamanna á Sauðárkróki segir að ástandið sé eins og í villta vestrinu en sjálfur ber sýslumaður allt slíkt tal til baka og kennir fjölmiðlum um of neikvæða umfjöllun.

Gylfi Thorlacius, lögmaður áminnta yfirlögregluþjónsins, telur að meint brot sem sagt var ítarlega frá í hádegisfréttum Stöðvar 2 í dag séu út í hött. Hann gerir líka alvarlegar athugasemdir við að yfirlögregluþjóninn hafi ekki fengið að sjá úttekt Ríkislögreglustjóra um lögregluna á Sauðárkróki þrátt fyrir að falast hafi verið eftir því með bréfi til sýslumanns. Ef skjólstæðingur hans eigi að geta bætt sig í starfi sé lágmarkskrafa að hann fái að vita hvernig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×