Innlent

Árni aflaði sér ekki nýrra gagna

MYND/GVA

Árni Mathiesen fjármálaráðherra leitaði sér ekki nýrra gagna þegar hann ákvað að skipa Þorstein Davíðsson sem dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Austurlands og gekk þar þvert á álit sérstakrar hæfisnefndar. Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstri - grænna, um málið.

Fram kemur í svarinu að Árni Mathiesen að hann hafi verið settur dómsmálaráðherra í málinu að tillögu forseta Íslands á ríkisstjórnarfundi 18. desember en tveimur dögum síðar var tilkynnt um skipun Þorsteins. Um hádegi þann 18. desember eftir ríkisstjórnarfundinn fór fjármálaráðherra í dóms- og kirkjumálaráðuneytið og fékk öll gögn er vörðuðu málið afhent, það er umsóknir ásamt fylgigögnum, álit dómnefndar og önnur bréf tengd málinu og auk þess eldri umsóknir umsækjenda og fylgigögn, sem fyrir lágu í ráðuneytinu.

Ráðherra aflaði sér ekki frekari gagna sem fyrr segir og og var málið til meðferðar hjá honum frá hádegi þann 18. desember 2007 til dagsloka þann 20. desember 2007. Til samanburðar var málið frá 7. nóvember til 29. nóvember í fyrra hjá dómnefnd um hæfi umsækjenda. Umsækjendum var sent álit dómnefndar þann 11. desember og fengu þeir frest til 17. desember til að bregðast við þeim með athugasemdum.

Að lokum kemur fram í svari setts dómsmálaráðherra að hann leitaði ekki til meðmælenda en skrifleg meðmæli sem fyrir lágu í málinu höfðu áhrif á ákvörðunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×