Innlent

Spurði hvort þingið hefði verið beitt blekkingum

MYND/Víkufréttir

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri - grænna, spurði á Alþingi í dag hvort fjármálaráðherra hefði beitt þingið blekkingum við gerð fjárlaga fyrir jól.

 

Jón kvaddi sér hljóðs í fyrirspurnartíma í dag og sagðist hafa tvö bréf sem tengdust sölu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar á eignum á gamla varnarliðssvæðinu. Samkvæmt bréfi fjármálaráðuneytisins væri söluverð eignanna 12,8 milljarðar en samkvæmt bréfi Ríkisendurskoðunar ætti að bókfæra eignirnar sem 15,7 milljarða króna í fjárlög. Spurði hann ráðherra hverju þetta sætti og hvort verið væri að blekkja þingið.

Fram kom í svari Árna Mathiesen fjármálaráðherra að mismunurinn á þessum tölum skýrðist af því að breytingar hefðu orðið frá því að tilboðið í eignirnar var gert og þar til samningar hefðu verið gerðir. Tvennt kæmi þar til. Annars vegar myndi Þróunarfélagið ekki breyta raflögnum í húseignunum heldur kaupandinn og því lækkaði kaupverðið. Þá hefði verið um að ræða færri fermetra af húsnæði en í upphafi hefði verið talið.

 

Jón sagði það koma á óvart að enn væri verið að krukka í kaupsamningana. Lagði hann áherslu á að skipuð yrðu sérstök rannsóknarnefnd sem færi ofan í sölu eignanna eins og þingmenn Vinstri - grænna hefðu lagt til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×