Innlent

Kemur með einhverjar áherslubreytingar

Guðmundur Guðmundsson segir að hann muni koma með einhverjar áherslubreytingar inn í íslenska landsliðið í handknattleik. Hann tók við því á ný í dag eftir fjögurra ára hlé.

„Einar Þorvarðarson og Guðmundur Ingvarsson höfðu samband við mig undir lok síðustu viku og eftir að ljóst varð að þeir sem þeir höfðu rætt við áður höfðu ekki áhuga, ákvað ég að ræða við yfirmenn mína hjá Kaupþingi. Þeir sýndu mér skilning og eftir það ákvað ég að fara í frekari viðræður við HSÍ. Raunverulega lá ekki endanleg ákvörðun fyrir hjá mér í þessu fyrr en í gærkvöldi," sagði Guðmundur í samtali við Arnar Björnsson í hádegisviðtalinu á Stöð 2.

„Ég ræddi við eina tvo leikmenn í landsliðinu því það er mikilvægt að þjálfari hafi gott bakland. Þeir tóku þessu vel og það var góð tilfinning að heyra þeirra sjónarmið," sagði Guðmundur, sem vildi ekkert tjá sig um það sem á undan gekk í þjálfaraleitinni hjá HSÍ.

Guðmundur samdi við HSÍ fram yfir Ólympíuleika og stýrir liðinu í undankeppni Ólympíuleikanna í maí og svo verða leikir við Makedóna í sumar í forkeppni HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×